21.1.2012 | 10:52
Kæri þingheimur
"Gleðilegt nýtt ár" er manni ekki hátt í huga þegar maður les fréttir fjölmiðlana þessar fyrstu vikur á nýju ári. Atvinnuleysi jókst í síðasta mánuði hins frekar viðburðalitla árs 2011 og satt að segja þá sér maður ekki miklar breytingar í vændum. Fleiri fyrirtæki stefna í þrot og aldrei hafa fleiri uppboð á eignum fólks verið á dagskrá sýslumannsembættanna heldur en næstu mánuði.
Á meðan á öllu þessu stendur heldur þingheimur áfram að eyða tíma sínum í að fjalla um hluti sem ekki hafa neitt með það að gera að reyna að snúa þessari þróun við. Forsætisráðherrann er algjörlega máttlaus og trúir því ennþá að héðan sé ekkert meiri fólksflótti en í "meðal" ári og fyrrum fjármálaráðherra reynir að sannfæra þjóðina um að skattar hafi ekkert aukist á fólk þess lands þrátt fyrir að nýjir skattar og gjöld hafi verið lagðir á Íslendinga í tuga tali frá því að hann tók við. Vonandi eru bjartari tímar framundan með nýjum fjármálaráðherra, þó að sjálfur hafi ég ekki mikla trú á því.
Þingheimur virðist algjörlega vera búinn að missa tengsl sín við þjóðina og spillingin virðist ekkert hafa minnkað þrátt fyrir fögur loforð ríkisstjórnarflokkana, endalausar fréttir af skýrslum sem stungið hefur verið undir stól og öðrum álíka faglegum vinnubrögðum hafa algjörlega lamað allar framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru (sem kannski er ekki svo slæmt þar sem sumar þessara framkvæmda eru hvort sem er ekkert sérstaklega gáfulegar) og á meðan stendur þjóðin á hliðarlínunni og bíður eftir því að eitthvað gerist sem bendir til þess að hér sé batnandi ástand.
Hvernig stendur á því að það er ennþá verið að hirða eigur fólks sem á að vera í greiðsluskjóli á meðan að þeirra mál eru skoðuð? Hvernig stendur á því að það er vafamál um hvort að það sé löglegt að fyrirtæki fari um á næturnar og hreinlega steli eigum fólks á meðan það sefur? Hvernig stendur á því að ekkert virðist vera gert til að stöðva þetta?
Kæri þingheimur, VAKNIÐI nú og farið að vinna í þágu fólksins í þessu landi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.